Smækka letur Stækka letur

Grunnskóli - unglingastig

Hér er að finna jafnréttisfræðsluefni fyrir nemendur og kennara á unglingastigi grunnskólans.  Annars vegar er um að ræða efni sem beint er til nemenda og hins vegar fræðsluefni sem nýtist kennurum í kennslunni.

Kynungabók, upplýsingarit fyrir ungt fólk (2010).
Menntamálaráðuneytið.
Markmið Kynungabókar eru að veita raunsæja mynd af stöðu kynjanna í samfélaginu og vekja ungt fólk til umhugsunar um hvernig mismunandi mótun kynjanna út frá menningu, umhverfi og tíma hefur áhrif á líf ungs fólks. Jafnframt er lagt upp úr því að ritið höfði til ungmenna og að þau geri sér grein fyrir að jafnréttismál varða bæði kynin og eru öllum til hagsbóta. Í ritinu eru hnitmiðaðar upplýsingar úr rannsóknum, gagnagrunnum, lögum og reglugerðum. Kynungabók er ætluð ungmennum á bilinu 15-25 ára og á því að ná til nemenda á þremur skólastigum; grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum.
Félags- og tryggingamálaráðuneytið, fjármálaráðuneytið, forsætisráðuneytið, Háskóli Íslands, iðnaðarráðuneytið, Jafnréttisstofa, Kópavogsbær og Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræði styrktu útgáfuna.


Allir eiga rétt (2007).
Susan Fountain. Ólöf Magnúsdóttir og Ólöf Júlíusdóttir þýddu.
Í öðrum kafla þessa kennsluefnis um mannréttindi er fjallað um kynin. Þar er komið inn á stöðu kvenna víða í heiminum og spurt spurninga eins og hvort kynin hafi jafna stöðu í einhverju landi í heiminum í dag. Þetta kennsluefni var gefið út af Unicef Ísland og Námsgagnastofnun. Efnið er ætlað unglingastigi.
Útgefandi: Námsgagnastofnun

Jöfn framtíð fyrir stráka og stelpur (2006).
Félagsmálaráðuneytið.
Um er að ræða vefsvæði á vef Félagsmálaráðuneytisins. Þar er að finna upplýsingar og hugmyndir um það hvernig hægt er að leiðbeina ungmennum á kynjameðvitaðan hátt um starfsval. Efninu er beint til ungmennanna, foreldra og kennara eða ráðgjafa. Efnið hentar fyrst og fremst unglingastigi en einnig má nýta það í framhaldsskólum.
Útgefandi: Félagsmálaráðuneytið

Kynlega klippt og skorið (2001).
Ásdís Olsen og Karl Ágúst Úlfsson. Myndir Böðvar Leósson.

Bókin er sett upp sem úrklippubók unglings sem er að velta fyrir sér málefnum kynjanna. Ýmis félagsmótandi öfl eru skoðuð í spéspegli og athyglinni beint að ríkjandi gildismati samfélagsins. Efninu er ætlað að vera kveikja að umræðum og verkefnum um málefnið. Bókin er ætluð unglingastigi grunnskólans og fylgja kennsluleiðbeiningar á vef námsgagnastofnunar.
Útgefandi: Námsgagnastofnun

Kynlíf (2006).
Ásdís Olsen.
Þetta námsefni í kynfræðslu skiptist í blöð sem ætluð eru hvoru kyni fyrir sig. Efnistök blaðanna eru þó hin sömu. Í blöðunum er fjallað um kynlíf og kynþroskann. Ætlast er til að nemendur fái blaðið til eignar. Einnig fylgir myndband með sem ber undirtitilinn Forfallakennarinn. Kennsluleiðbeiningar með efninu eru í vefútgáfu.
Útgefandi: Námsgagnastofnun

Leið þín um lífið – Siðfræði fyrir ungt fólk (2002).
Leonare Brauer, Dr. Richard Breun, Dr. Astrid Erdmann og Maritta Schöne. Stefán Jónsson þýddi. 

Bókin er ætluð unglingastigi grunnskóla. Hún skiptist í átta kafla sem hver um sig fjallar um ýmis svið lífsins. Spurt er spurninga eins og: Hvernig lífi viltu lifa? Hvaða hugmyndir gerir þú þér um gott líf? Hvaða lífsleiðir standa til boða? O.s.frv. Í bókinni eru einnig fjöldi verkefna.
Útgefandi: Námsgagnastofnun

Lífsgildi og ákvarðanir (1991).
John Forliti, Lucy Kapp, Sandy Naughton og Lynn Young. Bogi Arnar Finnbogason þýddi.
Þrettán stuttir þættir á myndbandi. Lífsgildi og ákvarðanir er námsefni í kynfræðslu sem er þýtt úr ensku. Í myndbandinu eru teknir fyrir líffræðilegir og siðfræðilegir þættir kynlífs. Myndbandið er ætlað unglingastigi en einnig fylgir kennarabók og foreldrabók námsefninu.
Útgefandi: Námsgagnastofnun

Margt er um að velja (2004).
Berglind Helga Sigurþórsdóttir og Helga Helgadóttir.
Margt er um að velja er náms- og starfsfræðsla fyrir unglingastig grunnskóla. Efnið er þannig byggt upp að það á að hjálpa nemendum að þekkja sjálfa sig og umhverfi sitt. Þannig á það að aðstoða unglingana við náms- og starfsval. Í námsefninu er komið inn á hluti eins og kynbundna starfshugsun og staðalmyndir hefðbundinna kvenna- og karlastarfa. Efnið er aðgengilegt á vef Námsgagnastofnunar á slóðinni http://www.nams.is/margt_er_um_ad_velja/index.htm
Útgefandi: Námsgagnastofnun

Píkutorfan (2000).
Linda Norrman Skugge, Belinda Olsson og Brita Zilg. Hugrún R. Hjaltadóttir og Kristbjörg Kristjánsdóttir þýddu.
Í bókinni er að finna 20 sjálfstæðar greinar um óskrifaðar reglur kynjahlutverkanna og hvernig höfundar greinanna hafa lent í þeim. Bókin var skrifuð af ungum femínistum í Svíþjóð með það að markmiði að virkja gagnrýna hugsun um þessi mál. Bókin ætti að henta unglingastigi grunnskóla og í framhaldsskólum.
Útgefandi: Forlagið

Sagan af Sylvíu og Darra (2000). Leikin íslensk mynd.
Leikstjórn: Ásthildur Kjartansdóttir.
Þessi leikna mynd hentar bæði fyrir unglingastig og framhaldsskóla. Sagan segir frá þeim Sylvíu og Darra sem eru ungt par sem er að hefja sambúð. Þegar sambúðin er hafin komast þau að því að hugmyndir þeirra um verkaskiptingu innan heimilisins er mjög ólík. Þegar þau eru bæði komin í góða vinnu eignast þau sitt fyrsta barn og fer þá að reyna á sambandið fyrir alvöru. Myndin er um 25 mínútur að lengd.
Útgefandi: Litla gula hænan

Um stelpur og stráka (2006).
Erla Ragnarsdóttir og Þórhalla Arnardóttir.

Þetta er námsefni í kynfræðslu fyrir unglingastig. Bókin er í fjórum köflum. Fyrsti kaflinn er um kynþroskann og þær breytingar sem hann hefur í för með sér. Kafli tvö er um ást og kynlíf. Sá þriðji fjallar um kynheilbrigði og fjórði og síðasti kaflinn er um barneignir. Bókinni fylgja kennsluleiðbeiningar á vef.
Útgefandi: Námsgagnastofnun

Jafnréttishandbókin (2000).
Hafsteinn Karlsson og Stefanía Traustadóttir. Myndir Freydís Kristjánsdóttir.
Jafnréttishandbókin fjallar um jafnrétti í skólastarfi, þá ábyrgð sem skólarnir ættu að hafa í þeim málum og skyldur hans. Fjallað er um það hvernig hægt er að stuðla að jafnrétti innan skólanna með því að gera sér grein fyrir fjölbreytileika nemendanna innan þeirra. Bókin er ætluð kennurum á öllum stigum grunnskólans.
Útgefandi: Námsgagnastofnun

Karlmennska og jafnréttisuppeldi (2004).
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson.
Í bókinni eru lagðar fram tillögur um jafnréttisuppeldi drengja. En þeir hafa verið taldir eiga undir högg að sækja í skólakerfinu eins og það hefur þróast til dagsins í dag. Ingólfur Ásgeir kemst þó að þeirri niðurstöðu að slökum námsárangri drengja sé ekki síst um að kenna hefðbundnum karlmennskuímyndum sem geta jafnframt verið drengjum skaðlegar. Í viðauka bókarinnar er að finna verkefni fyrir börn og unglinga, foreldra og börn og að lokum fyrir kennaranema. Bókin er ætluð kennurum allra stiga en nýtist öllum sem koma að uppeldi.
Útgefandi: Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum.

Kynjamyndir í skólastarfi (2005).
Ritstjórn: Arna H. Jónsdóttir, Steinunn Helga Lárusdóttir og Þórdís Þórðardóttir.
Bókin er ætluð kennurum á ýmsum skólastigum og einnig nemendum á efri stigum. Hún tekur fyrir nám, kennslu og stjórnun skóla í ljósi kynjafræðinnar. Bókin skiptist í 11 kafla og fjalla þeir m.a. um kynferði og vísindi, karlmennsku og kvenleika, konur og kennslu og femínískar kenningar.
Útgefandi: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Líkt og ólíkt. Kynjavíddin í uppeldisfræðilegri hugsun og starfi (1998).
Ritstjórn: Anne-Lise Arnesen. Ingólfur V. Gíslason þýddi.
Markmið bókarinnar er að koma kynjasjónarmiðunum að í kennaranámi og í skólum og leikskólum almennt. Hún byggir á reynslu norrænnar þróunarvinnu og er í raun endapunktur NORD-LILIA verkefnisins. En það fól í sér 62 þróunarverkefni í skólum á Norðurlöndunum. Bókin er ætluð kennaranemum, kennurum og áhugafólki um kyn og uppeldisfræði.
Útgefandi: Háskólaútgáfan

Menntun, forysta og kynferði (2007).
Guðný Guðbjörnsdóttir
Í bókinni fjallar Guðný um jafnréttisáhersluna sem kom upp í skólastarfi á 8. og 9. áratug síðustu aldar og það hvernig staða drengja í skólum er talin vera orðin lök. Hún tekur það fyrir hvað konur eru orðnar margar í menntakerfinu en jafnrétti sé þó ekki náð í launum og völdum þeirra. Bókin er ætluð nemendum í uppeldis- og kennslufræðum, kennurum, foreldrum og einnig stjórnmálamönnum og fjölmiðlafólki.
Útgefandi: Háskólaútgáfan

Nýir drengir og nýjar stúlkur – ný uppeldisstefna? (2004).
Ritstjórn: Ole Bredersen. Ingólfur V. Gíslason þýddi.
Þetta er bók sem sýnir fram á hversu margt það er sem er ólíkt fyrir stráka og stelpur. Þannig þurfa þau oft og tíðum á misjöfnum upplifunum að halda til að geta verið hamingjusöm. Þessi bók er því kjörin fyrir fólk sem kemur að uppeldismálum og kennslu á öllum skólastigum, einnig á leikskólum.
Útgefandi: Rafræn útgáfa
http://www.jafnretti.is/D10/_Files/Ny_uppeldisfraedi.pdf

Réttindi mín (1994).
Ritstjórn: Árný Elíasdóttir og Heimir Pálsson. Vilborg Dagbjartsdóttir þýddi.
Bókin er gerð upp úr Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og skiptist hún í þrjú hefti ásamt hefti fyrir kennara í grunn- og framhaldsskólum. Fyrsta heftið er ætlað yngsta aldurshópnum, eða nánar til tekið börnum á fyrstu árum grunnskólagöngu og þeim sem ekki hafa enn hafið hana. Hefti númer tvö er ætlað börnum á miðstigi grunnskólans og þriðja heftið er svo fyrir elstu börnin eða fram að 18 ára aldri. Fjórða heftið er svo ætlað kennurum.
Útgefandi: Námsgagnastofnun og Dómsmálaráðuneytið

Upp úr hjólförunum – um mótun kynjanna (1989). Mynd og bæklingur.
Umsjón: Sigrún Stefánsdóttir.
Upp úr hjólförunum – um mótun kynjanna er annars vegar mynd og hins vegar bæklingur. Í myndinni og bæklingnum er tekin fyrir mótun kynjanna og hvað það er helst sem verður til þess að drengir og stúlkur fara í sitt hvora áttina hvað kynjamynstur varðar. Einnig eru teknar fyrir leiðir til þess að hindra þessa þróun þannig að einstaklingar af báðum kynjum séu færir um að sjá fyrir heimilinu og um uppeldi barna samhliða því. Myndin og bæklingurinn henta kennurum og foreldrum barna á miðstigi, unglingastigi og í framhaldsskólum.
Útgefandi: Námsgagnastofnun

Úr viðjum vanans (2003).
Halla Gunnarsdóttir.
Þetta er B.ed. ritgerð Höllu Gunnarsdóttur frá Kennaraháskóla Íslands og jafnframt fræðsla fyrir kennara og fólk sem starfar við uppeldismál. Í ritgerðinni er kynmótun og kynferðislegt ofbeldi tekið fyrir. Þar eru einnig hugmyndir að kennsluefni tengdu þessum málum. Í ritgerðinni er farið yfir það hvernig kynmótun samfélagsins viðheldur mismun kynjanna og upplýsingar um kynferðislegt ofbeldi eru þannig grafnar niður.
Í hverjum kafla er að finna almenna fræðslu fyrir kennarann og í lok hvers kafla eru hugmyndir að því hvernig efnið er nýtt til kennslu.
Útgefandi: Lokaverkefni við Kennaraháskóla Íslands

Verndum þau (2006).
Ólöf Ásta Farestveit og Þorbjörg Sveinsdóttir.
Bókin fjallar um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og unglingum. Einnig um það hvernig bregðast eigi við ef grunur vaknar um slíkt. Tekið er fyrir kynferðislegt, líkamlegt og andlegt ofbeldi, einnig er fjallað um vanrækslu. Bókin er ætluð öllum sem starfa með börnum og unglingum. Hún hentar því leikskóla- og grunnskólakennurum en einnig þeim sem starfa með börnum og unglingum í félags-, íþrótta- og æskulýðsstarfi.
Útgefandi: Mál og menning

 
Jafnréttisstofa
Jafnréttisstofa
Þessi vefur er hannaður af D10.is
D10.is
Þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum
Jafnréttisstofa | Borgum v/Norðurslóð | 600 Akureyri
bergljot[at]jafnretti.is | sími 460-6200 Hafðu samband

Fræðslufulltrúi Jafnréttisstofu
Bergljót Þrastardóttir

bergljot[at]jafnretti.is Jafnréttisstofa Borgum v/ Norðurslóð sími 460-6200

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla
Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu og atvinnulífi.

Þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum

Samstarfsverkefni Reykjavíkur, Akureyrar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar, Jafnréttisstofu, félags- og tryggingmálaráðuneytisins sem miðar að því að auka og efla jafnréttis- og kynjasjónarmið í leikskólum og grunnskólum.

Helga Helgadóttir
MA ritgerð

"...drengir og stúlkur hugsa ekki á sama hátt um störf. Náms- og starfsráðgjafar þurfa að vera meðvitaðir um að það er mögulegt og jafnframt æskilegt að hafa áhrif á þessa hugsun."