Smækka letur Stækka letur

Grunnskólarnir á Akureyri í fararbroddi þegar kemur að jafnréttisáætlunum

Akureyrarbær hefur í gegnum sína jafnréttisstefnu og með ötulu starfi Katrínar Bjargar Ríkarðsdóttur framkvæmdastjóra Samfélags- og mannréttindadeildar bæjarins komið því til leiðar að allir grunnskólar bæjarins hafa sett sér aðgerðabundnar jafnréttisáætlanir. Skólarnir skila jafnréttisáætlununum inn til Samfélags- og mannréttindaráðs sem tekur þær til umfjöllunar. 

 
Til að fylgja þessari vinnu eftir samþykkti Samfélags- og mannréttindaráð Akureyrarbæjar að ráða verkefnastjóra í tímabundið hlutastarf til að hafa umsjón með vinnu við afnám neikvæðra staðalmynda í grunnskólum Akureyrar. Verkefnið er unnið í samvinnu við skóladeild Akureyrarbæjar og Jafnréttisstofu. Áhersla er lögð á fræðslu og ráðgjöf til starfsfólks skólanna á grundvelli jafnréttisáætlananna. Í samráði við skólastjórnendur og jafnréttisnefndir skólanna er sett upp dagskrá fyrir hvern skóla og þannig reynt að mæta þörfum skólanna á þeirra forsendum. 

Víða í skólakerfinu er mikið verk að vinna við mótun jafnréttisstefnu í samræmi við lög og opinber markmið. Því ber að fagna frumkvæði Samfélags- og mannréttindanefndar Akureyrarbæjar að tryggja skólunum nauðsynlegan stuðning við innleiðingu jafnréttis inn í allt skólastarf.

Undanfarnar vikur hefur Arnfríður Aðalsteinsdóttir verkefnastjóri á Jafnréttisstofu verið í sambandi við skólana og m.a. heimsótt og sett upp dagskrá með Hríseyjarskóla, Oddeyrarskóla, Giljaskóla, Hlíðarskóla og Naustaskóla.

Hríseyjarskóli var heimsóttur miðvikudaginn 10. október þar sem Arnfríður var með jafnréttisfræðslu fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Rætt var um staðalmyndir kynjanna, náms- og starfsval, orðræðuna og kynbundin viðhorf nemenda og starfsfólks. Í framhaldinu ákvað starfsfólk að vinna með viðhorf starfsfólks, nemenda og foreldra og stuðla þannig að aukinni jafnréttisvitund í skólanum og samfélaginu almennt.

Ákveðið hefur verið að setja upp svipaða dagskrá í Oddeyrarskóla í lok nóvember og Giljaskóli er með svipaðar hugmyndir í skoðun. Hlíðarskóli mun bjóða nemendum sínum upp á jafnréttisfræðslu í valtímum.

Föstudaginn 26. október er starfsdagur í Naustaskóla þar sem áhersla verður lögð á jafnrétti í skólastarfi. Arnfríður verður með innlegg og verkefnavinnu og jafnréttisnefndin kynnir jafnréttisáætlun skólans. Auk þess verður Aflið með fræðslu fyrir starfsfólk skólans en fyrr í vikunni var Aflið með fræðslu fyrir 10. bekk í Naustaskóla og Jafnréttisstofa með fræðslu fyrir 9. bekk.

Aðrir grunnskólar á Akureyri eru farnir að huga að því hvernig þeir vilja nýta sér þá fræðslu og ráðgjöf sem Akureyrarbær býður í gegnum Jafnréttisstofu og hvaða stuðning þeir telja sig þurfa við innleiðingu jafnréttis inn í skólastarfið.


Jafnréttisstofa
Jafnréttisstofa
Þessi vefur er hannaður af D10.is
D10.is
Þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum
Jafnréttisstofa | Borgum v/Norðurslóð | 600 Akureyri
bergljot[at]jafnretti.is | sími 460-6200 Hafðu samband

Fræðslufulltrúi Jafnréttisstofu
Bergljót Þrastardóttir

bergljot[at]jafnretti.is Jafnréttisstofa Borgum v/ Norðurslóð sími 460-6200

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla
Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu og atvinnulífi.

Þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum

Samstarfsverkefni Reykjavíkur, Akureyrar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar, Jafnréttisstofu, félags- og tryggingmálaráðuneytisins sem miðar að því að auka og efla jafnréttis- og kynjasjónarmið í leikskólum og grunnskólum.

Helga Helgadóttir
MA ritgerð

"...drengir og stúlkur hugsa ekki á sama hátt um störf. Náms- og starfsráðgjafar þurfa að vera meðvitaðir um að það er mögulegt og jafnframt æskilegt að hafa áhrif á þessa hugsun."